Innlent

Vilja friða hús frumkvöðla

Valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu í alþjóðlegu yfirlitsriti, segir Húsafriðunarnefnd um húsið sem Högna Sigurðardóttir teiknaði.
Fréttablaðið/Anton
Valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu í alþjóðlegu yfirlitsriti, segir Húsafriðunarnefnd um húsið sem Högna Sigurðardóttir teiknaði. Fréttablaðið/Anton
Einbýlishúsin á Bakkaflöt 1 og í Mávanesi 4 í Garðabæ eru meðal fjögurra einbýlishúsa sem Húsafriðunarnefnd telur að friða eigi sem merk framlög til íslenskrar byggingarlistar.

Auk áðurnefndra tveggja húsa leggur Húsafriðunarnefnd til við menntamálaráðherra að húsin í Brekkuskógum 8 og 10 á Álftanesi verði friðuð. Álftaneshúsin, sem eru frá upphafi sjöunda áratugarins, eru teiknuð af Manfreð Vilhjálmssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni. Manfreð hannaði Mávanes 4 og húsið á Bakkaflöt 1 er eftir Högnu Sigurðardóttur.

„Við lítum aðallega á friðunina þannig að við séum að gera viðvart um að viðkomandi hús teljist til þjóðminja,“ segir Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsa­friðunarnefndar.

„Á meistaralegan hátt tekst höfundi að endurskapa andrúm og efniskennd íslenskra torfbæja í nútímalegum formum og frjálsri rýmisskipan. Þessi frumlega túlkun á sérkennum íslenskrar byggingarlistar hefur orðið til þess að margir hafa tilnefnt þetta hús sem eitt merkasta framlag einstaklings til íslenskrar nútímabyggingalistar,“ segir í umsögn Húsafriðunarnefndar um húsið Bakkaflöt 1 sem byggt er árið 1965.

Um Mávanes 4, sem byggt er 1964, segir Húsafriðunarnefnd að styrkur hússins felist ekki síst í tengslum þess við umhverfið. „Það er að margra mati í hópi merkustu verka á sviði íslenskrar nútímabyggingarlistar,“ segir nefndin.

Nikulás segir Húsafriðunarnefnd hafa viljað friða tvö hús til viðbótar, Mávanes 7 eftir Guðmund Kr. Kristinsson og Sunnubraut 36 í Kópavogi eftir Högnu. Hætt hafi verið við friðun fyrra hússins vegna andstöðu eiganda þess en enn séu viðræður í gangi við eiganda síðarnefnda hússins.

Sú friðun sem lögð er til nær til ytra byrðis húsanna. „Fólk heldur stundum að við munum koma daginn sem húsið er friðað og henda því út. Í raun eru kvaðirnir sem fylgja friðun ekkert meiri en þær kvaðir sem eru á eigendum húsa eins og þær eru skilgreindar í skipulags- og byggingarlögum og byggingarreglugerð,“ útskýrir Nikulás Úlfar Másson.

gar@frettabladid.is
Mávanes 4 Höfundareinkenni Manfreðs Vilhjálmssonar birtast í yfirborðsmótun steinsteypu og samspili útveggja við létta burðargrind.Fréttablaðið/Anton
Brekkuskógar 8 og 10 Hús arkitektanna Manfreðs Vilhjálmssonar og Guðmundar Kr. Kristinssonar mörkuðu þáttaskil, segir Húsafriðunarnefnd. Fréttablaðið/Anton


Brekkuskógar 10



Fleiri fréttir

Sjá meira


×