Viðskipti innlent

Byr bútaður niður

Mikil uppstokkun stendur nú yfir á Byr sparisjóði, útibú verða sameinuð, deildir lagðar niður og starfsfólk flutt til. Að hagræðingaraðgerðum loknum mun ríkið væntanlega leggja honum til nýtt eigið fé upp á tæpa ellefu milljarða króna.

Stjórnendur Byrs stýra uppstokkun sparisjóðsins í samvinnu við stjórnvöld, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit. Til stendur að skera burt alla fitu af sjóðnum áður en ríkið réttir honum hjálparhönd, eins og einn viðmælenda Fréttablaðsins tók til orða. Byr óskaði eftir eiginfjárframlagi ríkisins í mars í fyrra.

Hagræðing er komin skemur á veg hjá Byr en stóru bönkunum. Ekki kom kippur í málið fyrr en stjórnendur sparisjóðsins stigu til hliðar undir lok síðasta árs. Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri hætti um miðjan síðasta mánuð. Þeir sem rætt var við segja starfslok stjórnenda tímabæra til að endurvekja traust.

Stefnt er á að hagræðingarferlið standi í um þrjá mánuði. Að því loknu muni Byr verða sparisjóður samkvæmt ströngustu skilgreiningu; taka við innlánum og veita lán. Verðbréfasvið og eignastýring verður lögð niður eða útvistuð.

Fyrstu sjáanlegu skref þess sem koma skal eru sögð sjást í sameiningu útibús Byrs í Garðabæ við útibúið í Kópavogi sem lýkur í dag. Það síðarnefnda mun vera arðbærasta útibú sparisjóðsins. Líkur eru á að önnur útibú verði sameinist.

Hjá Byr í Garðabæ voru sex starfsmenn. Þeir fara í önnur störf hjá Byr. Einar Birkir Einarsson, útibússtjóri í Garðabæ, fer í önnur verkefni í höfuðstöðvum Byrs, samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum.

Í fyrrahaust strandaði endurskipulagning Byrs á stofnfjáreigendum enda ljóst að þeir bæru skarðan hlut frá borði með ríkisframlaginu. Nokkuð hefur þokast í samkomulagsátt. Þýskir kröfuhafar létu af ströngustu kröfum sínum í nóvember í fyrra og óskuðu innlendir kröfuhafar nýverið eftir ítarlegum upplýsingum um fjárhagsstöðu sjóðsins. Næstu skref eru í höndum þeirra og fjármálaráðuneytis. Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi fjármálaráðherra, segir mál Byrs ganga vel. Hún er bundin trúnaði og vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×