Erlent

Uppbyggingarstarf næstu ára skipulagt

Íslendingarnir þrír, Sigríður Þormar, David Lynch og Hrafnhildur Sverrisdóttir héldu af stað til Haítí í gær.fréttablaðið/Pjetur
Íslendingarnir þrír, Sigríður Þormar, David Lynch og Hrafnhildur Sverrisdóttir héldu af stað til Haítí í gær.fréttablaðið/Pjetur
Þau Sigríður Þormar, Hrafnhildur Sverrisdóttir og David Lynch ganga til liðs við 24 manna alþjóðlegan hóp sérfræðinga á vegum Rauða krossins sem skipuleggur uppbyggingarstarf hreyfingarinnar á Haítí næstu þrjú árin.

Sérfræðingahópurinn mun kortleggja getu annarra hjálparsamtaka, stjórnvalda og Rauða krossins á Haítí, og hvar sérfræðiþekking og mannauður Rauða kross-hreyfingarinnar nýtist best í uppbyggingunni.

„Við höfum öll unnið við stærri verkefni á vegum Rauða krossins, en þetta er af svolítið öðrum toga,“ sagði Sigríður þegar Fréttablaðið náði tali af henni í gær. „Það er vitaskuld ábyrgðarhlutverk að taka þetta að sér. Það er helst það sem situr í manni.“

Gríðarlegt uppbyggingarstarf bíður alþjóðlegra hjálparsamtaka og heimamanna á Haítí eftir jarðskjálftann mikla sem reið yfir 12. janúar.

David Lynch segir Íslendinga hins vegar standa mjög framarlega hvað varðar hjálpar- og uppbyggingarstarf í kjölfar jarðskjálfta. „Við höfum tekið þátt í slíku svo víða að það hefur safnast saman mikilvæg þekking og reynsla.“

Sigríður Þormar er hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur með áratugareynslu af áfallahjálp og sálrænum stuðningi í kjölfar hamfara. Hún hefur starfað fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn víða um heim, og þjálfað sjálfboðaliða á vegum fjölda landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í sálrænum stuðningi.

Hrafnhildur Sverrisdóttir er sérfræðingur í mannréttindum og þróunarfræðum. Hún var sendifulltrúi Rauða kross Íslands á Fílabeinsströndinni og í Búrúndí, starfaði með íslensku friðargæslunni í Afganistan, og með Sameinuðu þjóðunum í Makedóníu og Kósóvó.

David Lynch hefur starfað á alþjóðasviði Rauða kross Íslands sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðarviðbrögðum í kjölfar hamfara, og á neyðarvarnaskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Genf. Hann var sendifulltrúi Rauða kross Íslands um árabil í Asíu, Miðausturlöndum, Tsjetsjeníu og Kákasuslöndunum.

Á Haítí eru fyrir þrír Íslendingar á vegum Rauða krossins og einn Íslendingur enn kemur þangað til starfa um næstu helgi.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×