Lífið

Frægt blaðaviðtal sett á svið

Auður Jónsdóttir leikstýrir verkinu Nei Dorrit! og fara Snorri Ásmundsson, Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Davíð Þór Jónsson með aðalhlutverkin. Fréttablaðið/Stefán
Auður Jónsdóttir leikstýrir verkinu Nei Dorrit! og fara Snorri Ásmundsson, Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Davíð Þór Jónsson með aðalhlutverkin. Fréttablaðið/Stefán
Frægt viðtal við íslensku forsetahjónin úr tímaritinu Condé Nast er efniviður nýrrar leiksýningar í Iðnó. Barnabarn nóbelsskáldsins Halldórs Laxness leikstýrir verkinu.

Leikritið Nei Dorrit! verður frumsýnt í Iðnó mánudaginn 12. apríl, en aðeins er um eina sýningu að ræða. Verkið er byggt á viðtalinu fræga sem blaðamaðurinn Joshua Hammer tók við forsetahjónin fyrir tímaritið Condé Nast og leikstýrir rithöfundurinn Auður Jónsdóttir verkinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Auður sest í leikstjórastólinn, en hún segir hugmyndina að leikritinu hafa kviknað yfir kaffibolla á Hótel Holti. „Við erum nokkur sem hittumst alltaf í listamannakaffi á Hótel Holti og spjöllum um daginn og veginn og eitt umræðuefnið var meðal annars þetta viðtal. Okkur fannst það bæði skemmtilegt og sorglegt á sama tíma og ákváðum að setja upp heilt leikrit í kringum það. Orð forsetahjónanna virðast eitthvað svo ankannaleg núna tvemur árum eftir að viðtalið var tekið og viðhorf þeirra heldur naív,“ útskýrir Auður.

Með hlutverk forsetahjónanna fara myndlistarmennirnir Snorri Ásmundsson og Ásdís Sif Gunnarsdóttir, tónlistarmaðurinn Davíð Þór Jónsson fer svo með hlutverk blaðamannsins Joshua Hammer. Aðspurð segist Auður ekki útiloka að fleiri leikrit verði sett á svið gangi þessi uppsetning vel. „Þá væri gaman að fara í gagnagrunnana hjá dagblöðunum og ná í fleiri „leikrit“ og setja þau upp, eins og Sjóvár-málið kannski. Maður verður bara að finna bitastæðustu viðtölin,“ segir Auður og hlær.

Sýningin hefst klukkan 20.30 í Iðnó og er miðaverð 1.000 krónur.

sara@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.