Erlent

Blóði hellt á hús og vinnustað Abhisits

Afhendir rós Öldruð kona í Bangkok afhendir lögreglumanni rauða rós.
fréttablaðið/AP
Afhendir rós Öldruð kona í Bangkok afhendir lögreglumanni rauða rós. fréttablaðið/AP

Mótmælendur í Taílandi héldu áfram að skvetta blóði til að leggja áherslur á kröfur sínar um að stjórn landsins segi af sér.

Í gær helltu þeir blóði á bæði heimili og vinnustað forsætisráðherrans, Abhisit Vejjajiva. Þúsundir mótmælenda höfðu látið taka úr sér blóð sem síðan var sett á plastdunka og notað með þessum hætti.

Mótmælendurnir segjast ætla að halda til í miðbæ höfuðborgarinnar Bangkok um óákveðinn tíma, en þó í minni hópum en undanfarna daga þegar þúsundir og jafnvel tugþúsundir manna hafa mætt til að mótmæla.

„Þegar rétti tíminn kemur þá boðum við til milljóna manna mótmæla á ný,“ segir Veera Musikapong, einn af leiðtogum mótmælendahreyfingarinnar.

Í mannfjöldanum eru bæði harðir stuðningsmenn fyrrverandi forsætisráðherra, Thaksin Shinawatra, og lýðræðissinnar sem eru að mótmæla valdaráni hersins árið 2006.

Herinn tók völdin af Thaksin Shinawatra eftir langvarandi fjöldamótmæli gegn honum, sem studdust meðal annars við ásakanir um spillingu. Thaksin fór í framhaldi af því í sjálfskipaða útlegð og hefur síðan hlotið dóm fyrir spillingarmál. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×