Erlent

Fjórir menn skotnir í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.
Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.

Mennirnir fjórir sem voru skotnir voru allir af erlendu bergi brotnir. Gengi þeirra og Vítisenglar hafa lengi borist á banaspjót og oft komið til skotbardaga.

Í öðru tilfellinu sem talist er tengjast gengjastríði voru tveir menn skotnir og særðir. Þeir eru ekki taldir í lífshættu. Vinir þeirra fluttu þá á sjúkrahús og voru þeir allir handteknir.

Í hinu tilfellinu var einn maður skotinn í hálsinn og særður. Annar maður hryggbrotnaði í heiftarlegum slagsmálum sem þeirri árás fylgdu.

Sá sem varð fyrir skotinu var fluttur á sjúkrahús og þar biðu hans tíu ættingjar og vinir. Þeir voru allir handteknir.

Í fjórða skot-tilfellinu var um að ræða ránstilraun sem fór úr böndunum. Reynt var að ræna kráareiganda sem var á leið heim til sín seint um kvöld.

Hann snerist til varnar og í slagsmálunum varð hann fyrir skoti. Hann er ekki talinn í lífshættu.

Það hefur verið fremur rólegt í Kaupmannahöfn undanfarna mánuði enda hefur verið þar veður vont, mikill snjór og kuldi. Misindismenn hafa því að mestu haldið sig heima eins og aðrir borgarar.

Lögreglan óttast hinsvegar að nú sé friðurinn úti því talið er líklegt að erlendu gengin muni leita hefnda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×