Erlent

Óttast geislavirkni af völdum eldanna

Eftir kæfandi reykjarmengun í heila viku snerist vindáttin svo Moskvubúar geta nú loks dregið andann þrátt fyrir eldana í næsta nágrenni.
nordicphotos/AFP
Eftir kæfandi reykjarmengun í heila viku snerist vindáttin svo Moskvubúar geta nú loks dregið andann þrátt fyrir eldana í næsta nágrenni. nordicphotos/AFP
Starfsmenn almannavarna í Rússlandi standa nú vakt í Brjansk-héraði, suður undir Úkraínu, þar sem eldar hafa kviknað á að minnsta kosti sex stöðum nú í vikunni.

Héraðið varð illa úti vorið 1986 vegna mengunar frá Tsjernóbyl-héraðinu í Úkraínu, sem þá tilheyrði Sovétríkjunum. Geislavirkar agnir eru þar enn í jörðu, og hafa umhverfissamtök bent á þá hættu sem stafar af því að eldarnir hrófli við þessum ögnum og þær berist síðan með vindi langar leiðir. Sergei Shoigu, almannavarnaráðherra Rússlands, hefur viðurkennt að hættan sé fyrir hendi.

Vel hefur þó gengið að slökkva eldana í Brjansk, að sögn Irinu Jegoruskinu, talskonu almannavarnaráðuneytisins. Hún segir sömuleiðis að ekki hafi mælst aukin geislavirkni í héraðinu, þrátt fyrir eldana.

„Það hafa kviknað hér nokkrir eldar, en ástandið er ekki jafn slæmt og í nágrenni Moskvu," segir hún.

Hundruð elda loga enn í vestan-verðu Rússlandi, flestir í nánd við höfuðborgina Moskvu þar sem kæfandi reykjarmökkur hefur gert íbúum afar erfitt fyrir.

Fjölmargir hafa veikst alvarlega og dánartíðni í borginni er nú komin upp í 700 manns á degi hverjum. Líkhús eru sögð yfirfull. Um 165 þúsund manns vinna við að slökkva eldana. Beitt er 39 flugvélum. Vladimír Pútín forsætisráðherra hefur látið til sín taka á vettvangi og verið áberandi í fjölmiðlum. Hörð gagnrýni hefur engu að síður beinst að stjórnvöldum almennt og Pútín sérstaklega fyrir að hafa ekki varað fólk við hættunni strax og spáð var óvenju skæðri hitabylgju nú í sumar. Stjórnvöld þykja hafa brugðist seint og illa við vandanum, og rússneskir leiðarahöfundar segja sýndarmennsku Pútíns, sem settist sjálfur í flugstjórnarklefa einnar þeirra flugvéla, sem notaðar eru í slökkvistarfinu, ekki bæta þar úr.

Skoðanakannanir sýna að vinsældir bæði Pútíns og Dmitrís Medvedev forseta hafa dvínað undanfarið.

Talið er að það tjón, sem nú þegar hefur orðið af völdum eldanna, geti orðið nærri 2.000 milljarðar í krónum talið, en það er um eitt prósent af þjóðarframleiðslu Rússlands. Hitarnir í Rússlandi nú í sumar hafa mælst meiri en nokkru sinni frá því reglulegar mælingar hófust fyrir 130 árum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×