Handbolti

Lino Cervar: Vörnin lykilatriði gegn Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Lino Cervar, þjálfari Króata.
Lino Cervar, þjálfari Króata. Mynd/AFP

Lino Cervar, landsliðsþjálfari Króatíu, segir að varnarleikurinn verði lykilatriði fyrir sína menn gegn Íslandi í dag.

Liðin mætast í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar á EM í handbolta í dag en leikurinn hefst klukkan 15.00.

„Vörnin verður mikilvægasti þátturinn í okkar leik. Ísland mun ekki sóa sínum sóknum í leiknum og við þurfum að passa okkur sérstaklega á því að tapa ekki boltanum í sókninni."

„Íslendingar eru mjög fljótir að refsa fyrir mistök eins og sást gegn Dönum um helgina. Þá eru þeir mjög fljótir að byggja upp forskot sem er erfitt að ná."

Hann segir að hafa verði sérstakar gætur á Ólafi Stefánssyni.

„Hann er frábær leikmaður sem á glæsilegan feril að baki. Það eru fleiri góðir leikmenn eins og Guðjón Valur Sigurðsson sem er afar fljótur. Róbert Gunnarsson er mjög hættulegur á línunni og það má ekki heldur gleyma Arnóri Atlasyni sem er frábær skytta."

 

„Þetta er mjög samheldið og öflugt lið," sagði Cervar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×