Skoðun

Nokkrar athugasemdir við ummæli kvöldgests Jónasar

Nokkrir starfsmenn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns skrifar

Undirrituðum starfsmönnum Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns sem hlustuðu á Kvöldgesti Jónasar Jónassonar föstudaginn 10. desember var verulega brugðið. Gestur Jónasar umrætt kvöld var Sigrún Klara Hannesdóttir sem var landsbókavörður árin 2002-2007.

Ummæli Sigrúnar Klöru um starfsmenn safnsins voru hörð svo vægt sé til orða tekið. Hún talaði um hatrömm átök við undirmenn sína og sagði m.a.: „Þetta var mjög kvalafullt oft. Ég var of veikgeðja til þess að taka harkalegum árásum sem ég varð fyrir. Ég held að þeir hafi helst viljað koma mér fyrir kattarnef, það var svo hatrammt.“

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir í garð starfsmanna. Vissulega ríkti mikill órói í safninu þessi ár. Sigrún Klara nefndi þó ekki ástæðuna fyrir honum. Hún var ekki búin að vera ár í embættinu þegar hún boðaði nýtt skipurit sem var svo lagt fram án samráðs við millistjórnendur í safninu.

Aldrei tókst að fá rökstuðning fyrir nauðsyn þess. Í kjölfarið misstu svo nokkrir starfsmenn vinnuna. Þar á meðal voru starfsmenn sem höfðu langa starfsreynslu og farsælan vinnuferil og voru komnir yfir sextugt, m.a. Ögmundur Helgason forstöðumaður handritadeildar, sem lést skömmu síðar. Skipulagsbreytingarnar kostuðu rúmlega 30 milljónir króna og var safnið rétt að vinna upp hallann sem myndaðist þegar bankarnir hrundu og kreppa skall á. Vissulega var starfsfólki mjög brugðið við þessar gjörðir, og ekki ríkti ánægja með þær, nema síður væri.

Sigrún Klara sagði ennfremur: „Það var talað um það á þingi að ég væri að eyðileggja allt þarna í safninu og menntamálaráðherra þurfti að verja mig. Sjálfsagt hefur þetta líka haft áhrif á það að mig langaði ekki að vera þarna áfram. Ég man eftir einu sinni þá hugsaði ég í alvöru að ég yrði að hætta, ég þyldi þetta ekki. Þá fékk ég svo hatrammar árásir að ég hélt ég myndi þurfa lögregluvernd.“ Sigrún Klara nefndi greinar í Morgunblaðinu sem hún sagði hafa verið skrifaðar af karlmanni og verið „hræðilegt níð“ um sig. Hún nefndi einnig nafnlausar árásir og stórt nafnlaust níðbréf sem hafi verið skrifað af konu.

Það er erfitt fyrir starfsmenn safnsins að sitja undir svo alvarlegum ásökunum. Segja má að allar konur sem vinna í safninu liggi nú undir grun um að hafa skrifað téð níðbréf. Karlmaðurinn sem skrifaði greinar í Morgunblaðið í febrúar og mars 2005 skrifaði undir nafni. Hann er prófessor við Háskóla Íslands og tíður gestur á safninu og ritaði greinarnar meðal annars til stuðnings ofannefndum starfsmanni sem hann þekkti. Hann skrifaði að sjálfsögðu á eigin ábyrgð. Við hörmum þessi ummæli Sigrúnar og vísum þeim algjörlega á bug.

 




Skoðun

Sjá meira


×