Handbolti

Guðmundur: Búinn að missa fjögur kíló

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Mynd/Diener
Guðmundur Guðmundsson viðurkennir að það fari ansi mikil orka í leiki íslenska liðsins hjá sér enda er óhætt að segja að hann sé líflegur á hliðarlínunni.

„Jú, það fer ansi mikil orka í leikina hjá mér," sagði hann við Vísi og brosti. „Þetta er ágætis megrun. Ég hef núna lést um fjögur kíló á meðan keppninni hefur staðið og er það ágætt."

„En þetta er bara minn stíll. Þetta er mismunandi hjá þjálfurum og svona er ég."

Hann segir að liðið fari fullir sjálfstrausts í undanúrslitaleikinn gegn Frökkum í dag.

„Við getum vel unnið Frakka á góðum degi. Við þurfum auðvitað að spila vel en við erum enn taplausir og getum unnið þá eins og hverja aðra."

Það gladdi hann líka að heyra hvað frönsku leikmennirnir voru að segja í fjölmiðlum fyrir leikinn.

„Þeir segja að þeir verði að passa sig á því að vanmeta okkur ekki. Það er ágætt að heyra að þeir séu að glíma við það."

Frakkar sýndu veikleikamerki í upphafi móts. Þeir byrjuðu á því að gera jafntefli við Ungverja og unnu svo nauman sigur á Tékkum, 21-20.

En svo hafa komið fjórir sigurleikir í röð og Frakkar unnu sinn milliriðil.

„Þeir sýndu vissulega veikleikamerki í upphafi móts en það gerðum við líka. Þetta hefur því verið svipað ferli hjá báðum liðum og ég tel það vitanlega betra að stíga upp þegar mest á reynir í stað þess að byrja vel en dala svo."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×