Erlent

Palin dreymir um að hitta Járnfrúna

Mynd/AP

Sarah Palin, varaforsetaefni Repúblíkana í síðustu forsetakosningum, dreymir um að hitta Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem Palin segir að sé átrúnaðargoðið hennar og ein helsta fyrirmynd hennar.

Samband Thatcher, eða Járnfrúarinnar eins og hún er oft kölluð, og Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseta, er skýrt dæmi um hið sérstaka samband milli Bandaríkjanna og Bretlands, að mati Palin. Hún greinir frá því á samskiptasíðunni Facebook að henni hafi nýverið verið boðið til Bretlands. Palin vonist til að hitta Thatcher í þeirri ferð.

Palin var varaforsetaefni Repúblíkana í forsetakosningunum 2008. Hún lét af störfum sem ríkisstjóri Alaska í júlí á síðasta ári. Búist er við því að hún gefi kost á sér í forvali Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar eftir tvö ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×