Erlent

Öryggisráðið fjallar um deiluna á Kóreuskaga

Mynd/GVA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjallar nú deilu Norður- og Suður-Kóreu en bæði ríkin hafa lagt fram gögn máli sínu til stuðnings.

Suður-Kórea hefur hætt öllum viðskiptum við Norður-Kóreu og krafist afsökunarbeiðni eftir að alþjóðleg rannsókn leiddi í ljós að Norður-Kóreumenn sökktu 1200 tonna herskipi sunnanmanna sem kostaði 46 manns lífið í lok mars. Norður-kóresk stjórnvöld brugðust ókvæða við þessum ásökunum í síðasta mánuði og fullyrtu að um uppspuna væru að ræða. Í framhaldinu færðist aukin spenna í samskipti ríkjanna og svöruðu norðanmenn fyrir sig með því að segja öllum samskiptum slitið. Jafnframt var sett siglinga- og flugbann á Suður-Kóreu.

Yfirvöld í Suður-Kóreu vísuðu deilunni til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem hefur nú málið til umfjöllunar. Sendiherra Japans hjá Sameinuðu þjóðunum segir í samtali við breska ríkisútvarpið að þau gögn sem sunnanmenn lögðu fyrir ráðið hafi verið afar sannfærandi.

Í yfirlýsingu sem Öryggisráðið samþykkti í nótt eru deiluaðilar hvattir til að slíðra sverðin og grípa ekki til aðgerða sem komi til með að stigmagna hina hörðu deilu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×