Erlent

Réttarhöldum yfir Berlusconi frestað aftur

Mynd/AP

Réttarhöldum yfir Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur enn á ný verið frestað og nú til febrúarloka. Í fyrstu stóð til að forsætisráðherrann kæmi fyrir dóm í nóvember vegna áskana í spillingarmáli.

Berlusconi er sagður hafa mútað breskum lögfræðingi, David Mills, fyrir 12 árum til að segja ósatt í öðru máli sem stóð yfir gegn honum vegna spillingarákæru. Lögfræðingurinn hefur verið sakfelldur fyrir að þiggja mútugreiðslu en þeim úrskurði hefur hann áfrýjað.

Þrír dómarar í máli forsætisráðherrans ákváðu í gær þegar réttarhöld yfir honum áttu að hefjast að fresta þeim til 27. febrúar eða þangað til dómstólar hefðu tekið afstöðu til áfrýjunar breska lögfræðingsins.

Í október á síðasta ári kvað stjórnlagadómstóll Ítalíu upp þann úrskurð að lög sem tryggðu Berlusconi friðhelgi fyrir dómstólum brytu í bága við stjórnarskrá landsins. Úrskurður stjórnlagadómstólsins gerði það að verkum að saksóknarar gátu haldið áfram dómsmálum sem höfðuð voru á hendur forsætisráðherranum áður en lögin voru tóku gildi.

Auk spillingarmálsins er annað mál í gangi innan ítalska dómskerfisins sem tengist ásökunum um stórfelld skattsvik í tengslum við fjölmiðlafyrirtæki Berlusconi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×