Erlent

Passið ykkur á kínverskum tölvukubbum -og stelpum

Best að fara varlega í Kína.
Best að fara varlega í Kína. Mynd/Henry Li

Breska leyniþjónustan MI5 segir að breskir kaupsýslumenn ættu að gæta sín á því að taka við tölvu-minniskubbum að gjöf frá kínverskum viðskiptavinum.

Þeir ættu einnig að gæta sín á hleruðum hótelherbergjum og vingjarnlegum kínverskum konum.

Breska blaðið The Times hefur komist yfir leyniskýrslu MI5 þar sem segir að kínversk stjórnvöld haldi uppi umfangsmiklum og skipulögðum árásum á bresk fyrirtæki sem búa yfir upplýsingum eða þekkingu sem geti gagnast þeim. Þetta sé mesta njósnaógn sem steðji að Bretlandi í dag.

Um minniskubbana segir í skýrslunni að í þeim geti verið vírusar sem geri Kínverjum kleift að komast inn í tölvur viðkomandi og skoða þar allt sem þeir vilja.

Um hótelherbergin segir að í stærri borgum sé líklegt að hótelherbergi séu hleruð. Einnig sé leitað í herbergjunum þegar gestirnir eru fjarri.

Þá eru nefndar í skýrslunni svokallaðar hunangsgildrur. Það eru ungar konur í kínversku leyniþjónustunni sem gefa sig að kaupsýslumönnum. Annaðhvort til þess að stela af þeim upplýsingum eða kúga þá með myndum af rúmsenum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×