Viðskipti innlent

Gruna dótturfélög íslensku bankanna um að hafa falið arðgreiðslur

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Grunur leikur á að dótturfélög íslensku bankanna í Lúxemborg hafi falið arðgreiðslur til að raunverulegir eigendur félaganna sem fengu arðinn kæmust hjá því að greiða skatt hér á landi.

Skattyfirvöld hafa undanfarna mánuði unnið að því að greina eignarhald á félögum í skattaskjólum í eigu íslenskra aðila. Búið er að greina eignarhald á um 100 félögum.

Íslensku bankarnir, bæði hér og í Lúxemborg, stofnuðu flest þessara félaga. Kaupþing í Lúxemborg hafði t.a.m. þann háttinn á að stofna félög í gegnum 2 til 3 skúffufélög á eyjunni Tortola. Slík félög fjárfestu í mörgum tilfellum í íslenskum hlutabréfum og verðbréfum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur grunur á að dótturfélög íslensku bankanna í Lúxemborg hafi hagað skráningu á hlutabréfunum þannig hér að landi að það liti út fyrir að þau ættu þau. Málið var hins vegar að raunverulegir eigendur bréfanna voru svokölluð 1929 félög sem voru í eigu Íslendinga.

Slík félög eru undanþegin frá skatti. Dótturfélögum íslensku bankanna bar ekki að halda eftir neinni staðgreiðslu af arði af hlutabréfum. Grunur leikur því á að þetta hafi verið gert til að eigendur félaganna kæmust hjá því að greiða skatt af arði hér á landi.

Komi það í ljós að eigendur félaganna hafi komist hjá því að greiða skatt með þessum hætti geta þeir átt það á hættu að fá endurálagningu frá skattyfirvöldum. Hún nemur fjármagnstekjuskattinum auk 25 prósenta álagi, samtals 43 prósentum af arðgreiðslunum.

Nú þegar hafa tveir einstaklingar sem áttu 1929 félög í Lúxemborg óskað eftir að félögin verði skattlögð hér á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×