Erlent

Deilt um heimapössun fatlaðra barna í Gentofte

Deilur hafa blossað upp í sveitarfélaginu Gentofte í Danmörku vegna greiðslna til þeirra foreldra sem velja að passa fötluð börn sín heima við í stað þess að senda þau á stofnanir.

Það sem veldur deilunum er að samkvæmt lögum borgar sveitarfélagið foreldrunum í samræmi við launatap þeirra fyrir pössunina. Dæmi eru um að foreldri fái sem svarar til tæplega 30 milljóna króna árlega fyrir barnapössun sína að því er segir í frétt í Jyllands Posten um málið.

Meðalgreiðslur til foreldra í Gentofte vegna pössunar á fötluðum börnum nema ríflega 11 milljónum króna á ári. Sveitarstjórnin vill að þessar greiðslur nemi að hámarki um 5 milljónum króna þar sem sveitarfélagið hafi ekki efni lengur á að standa undir hinum háu greiðslum. Ástæðan fyrir miklum útgjöldum Gentofte vegna þessa er að þar búa mikið af efnuðum Dönum.

Formaður Samtaka fatlaðra í Danmörku segir að það yrði dýrarara fyrir sveitarfélagið ef foreldrarnir gæfust upp við pössunina og sendu börn sín aftur á stofnanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×