Viðskipti innlent

Eignarhald banka ógn við samkeppni

Mögulega væri búið að opna Bauhaus-verslun hér á landi ef Húsasmiðjan hefði ekki fengið líflínu frá Landsbankanum segir Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar.Fréttablaðið/GVA
Mögulega væri búið að opna Bauhaus-verslun hér á landi ef Húsasmiðjan hefði ekki fengið líflínu frá Landsbankanum segir Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar.Fréttablaðið/GVA

Bitur reynsla sýnir að bankar taka eingöngu ákvarðanir sem stuðla að hámarkshagnaði hverju sinni, án tillits til afleiðinga. Bönkunum er því ekki treystandi til að gæta að samkeppnismarkmiðum.

Þetta segir Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar. Hann sendi Samkeppniseftirlitinu harðort bréf nýverið vegna umræðu um yfirtöku banka á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.

Eins og sagt hefur verið frá í Fréttablaðinu komst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að heimildir Samkeppniseftirlitsins til að setja skilyrði við yfirtöku banka á fyrirtækjum séu ríkari en eftirlitið taldi.

Í bréfinu bendir Baldur á að Samkeppniseftirlitið hafi enga burði til að fylgjast með því að bankarnir vinni ekki gegn samkeppnislögum í þeim fyrirtækjum sem þeir taki yfir. Það nálgist kjánaskap hjá eftirlitinu að setja fram slík óskhyggjumarkmið.

„Af þessu leiðir að líta verður á eignarhald bankanna á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði sem ógn við markmið samkeppnislaga, en ekki styrk fyrir samkeppnina eins og Samkeppniseftirlitið ályktar," segir í bréfi Baldurs.

„Sá fjárhagslegi styrkur sem bankarnir veita með aðkomu sinni gerir yfirteknu fyrirtækjunum kleift að vaða á skítugum skónum yfir keppinauta sína með undirboðum og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, halda þeim niðri og koma þannig í veg fyrir eðlilega samkeppni," segir í bréfinu.

Ótækt er að bankar taki yfir rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði, segir Baldur.

Eðlilegra væri að setja fyrirtæki, sem hafi verið illa rekin og séu of skuldsett, í þrot. Þá geti aðrir keypt úr þrotabúinu, eða komið nýjum fyrirtækjum inn á erfiðan markað.

Baldur tekur Húsasmiðjuna sem dæmi, einn samkeppnisaðila Múrbúðarinnar á byggingavörumarkaði. Landsbankinn tók fyrirtækið yfir á síðasta ári og kom í veg fyrir að fyrirtækið færi í þrot. Baldur fullyrðir í samtali við Fréttablaðið að Landsbankinn hafi hafnað því að selja fyrirtækið og kjósi frekar að reka það áfram enn um sinn.

Baldur bendir í bréfi sínu á risavaxið húsnæði Bauhaus sem enn standi autt. „Allt eins mætti álykta að með því að halda Húsasmiðjunni á floti, þá sé verið að koma í veg fyrir að Bauhaus taki til starfa og þar með verði minni samkeppni en ella."brjann@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×