Handbolti

Wenta: Viljum enda á góðum nótum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Bogdan Wenta, landsliðsþjálfari Póllands.
Bogdan Wenta, landsliðsþjálfari Póllands. Mynd/AFP
Bogdan Wenta, landsliðsþjálfari Póllands, á von á erfiðum leik gegn Íslandi um bronsið á Evrópumeistaramótinu í handbolta í dag.

„Það eru auðvitað mikil vonbrigði að hafa tapað undanúrslitaleiknum og margar tilfinningar sem fylgja því," sagði Wenta á blaðamannafundi eftir leik liðsins gegn Króatíu í undanúrslitum mótsins í gær. Króatía vann leikinn, 24-21.

„Við þurfum hins vegar nú að einbeita okkur að þessum leik en hann verður erfiður. Ísland hefur spilað mjög vel á þessu móti."

„Sumir hafa sagt að Ísland spili aðeins með átta leikmenn en það er ekki rétt. Liðið allt hefur spilað vel allt mótið. Það hefur unnið marga mikilvæga leiki."

„Það eru margir góðir leikmenn í liðinu eins og Ólafur Stefánsson. Nú munum við nota kvöldið til að kíkja á þá og undirbúa okkur fyrir leikinn."

Pólland er nú að keppa í fyrsta sinn um verðlaun á Evrópumeistaramóti en Ísland var í sömu stöðu á EM í Svíþjóð árið 2002.

„Það má ekki gleyma því að við vorum í fyrsta sinn á undanúrslitum stórmóts og mér finnst liðið hafa tekið mjög jákvætt skref fram á við."

„Við viljum því enda á góðum nótum og munum leggja allt í leikinn gegn Íslandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×