Erlent

Þarf í læknisskoðun aftur

Silvio Berlusconi Samsæriskenningar hafa skotið upp kollinum um að árásin í desember hafi verið sviðsett.
nordicphotos/AFP
Silvio Berlusconi Samsæriskenningar hafa skotið upp kollinum um að árásin í desember hafi verið sviðsett. nordicphotos/AFP

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, þarf að fara í læknisskoðun til að kanna hvort hann hafi náð sér af meiðslum þeim sem hann hlaut þegar maður réðst á hann í desember.

Saksóknari þarf að vita hvort meiðslin greru á innan við 40 dögum, því þau mörk er miðað við þegar ákvörðun er tekin um hvort árásarmaðurinn verði ákærður fyrir meiri háttar líkamsárás.

Mörgum Ítölum hefur þótt einkennilegt hvað Berlusconi hefur virst fljótur að ná sér eftir árásina. Samsæriskenningar hafa skotið upp kollinum þess efnis að árásin hafi verið sviðsett.

Berlusconi þarf að svara fyrir sig á fleiri vígstöðvum, því tvenn réttarhöld standa nú yfir á Ítalíu þar sem fjallað er um ákærur á hendur honum vegna spillingarmála.

Hann segist ekki hafa ákveðið hvort hann ætli að mæta við réttarhöldin, en samkvæmt ítölskum lögum ber honum ekki skylda til þess. „Ef ég mæti, þá myndi ég ekki standa frammi fyrir dómstól heldur aftökusveit,“ sagði forsætisráðherrann umdeildi við blaðamenn í Róm.

Skömmu áður hafði ítalska þingið afgreitt úr fyrstu umræðu frumvarp að lögum, sem geta orðið til þess að réttarhöldin falli niður á þeim forsendum að þau hafi staðið of lengi yfir.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×