Erlent

Brown væntanlega kallaður fyrir þingnefnd

Gordon Brown forsætisráðherra Breta þarf að öllum líkindum að koma fyrir þingnefnd sem nú rannsakar upphaf og aðdraganda Íraksstríðsins.

Búist er við því að tilkynnt verði um þetta í dag og að Brown þurfi að mæta fyrir nefndina áður en þingkosningar fara fram í Bretlandi í vor. Áður hafði verið reiknað með að ráðherrann, sem var fjármálaráðherra þegar Bretar ákváðu að taka þátt í innrásinni í Írak, þyrfti ekki standa fyrir máli sínu fyrr en eftir þingkosningarnar. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar lagt áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherrann ljúki því af fyrir kosningar.

Talsmenn Brown segja að hann hafi ekkert að fela í málinu og því sé honum ekkert að vanbúnaði. Hann muni því mæta um leið og á hann er kallað. Að mati stjórnarandstöðunnar á almenningur rétt á að heyra svör hans fyrir kosningar því sem fjármálaráðherra beri hann ábyrgð á fjárveitingum til varnarmálaráðuneytisins og þarmeð fjárveitingum sem fóru í stríðið.

Dagsetning á væntanlegar kosningar liggur ekki fyrir en þær verða þó að hafa farið fram fyrir fyrstu viku júnímánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×