Innlent

Veðurstofan varar við stormi

Rjúpnaveiðimenn eru hvattir til að fara sér hægt þessa helgina, þó eflaust séu þeir margir óþreyjufullir
Rjúpnaveiðimenn eru hvattir til að fara sér hægt þessa helgina, þó eflaust séu þeir margir óþreyjufullir
Veðurstofa Íslands varar við stormi austantil á landinu og á Miðhálendinu í nótt og fram eftir morgundegi.

Ferðafólki sem hyggur á ferðalag á milli landshluta, einkum norðan- og austanlands, síðdegis og á morgun er bent á fylgjast grannt með fréttum af veðri og færð.

Rjúpnaveiðitíminn hófst á miðnætti en menn eru hvattir til að fara sér hægt þessa helgina þar sem spáð er vonskuveðri.

Slysavarnafélagið Landsbjörg sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem bent er á að undanfarin ár hafa björgunarsveitir ítrekað verið kallaðar út til að leita að rjúpnaveiðimönnum. Þeim, sem öðrum, er því bent á að fylgjast vel með veðurspá áður en haldið er út fyrir bæjar- og borgarmörk.

Á laugardag er búist við norðaustan hvassviðri eða stormi við austur- og norðurströndina ásamt talsverðri ofankomu. Einnig má búast við svipaðri eða meiri veðurhæð á fjöllum. Færð getur spillst á skömmum tíma og lítið eða ekkert ferðaveður verður víða um land.

Sunnantil á landinu verður heldur hægari vindur og úrkomulítið. Á sunnudag dregur úr vindi og ofankomu fyrir norðan og ætti víðast hvar að vera komið skaplegt veður seinnipartinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×