Erlent

Hörð átök mótmælenda og hermanna

Hörð átök brutust út enn á ný í Bangkok, höfuðborg Tælands, í nótt milli hermanna og mótmælenda. Mynd/AP
Hörð átök brutust út enn á ný í Bangkok, höfuðborg Tælands, í nótt milli hermanna og mótmælenda. Mynd/AP Mynd/AP

Tælenski herinn beitti táragasi til að dreifa mótmælendum í Bangkok í nótt. Bretar hafa ákveðið að loka sendiráði sínu vegna ólgunnar í landinu.

Hörð átök brutust út enn á ný í Bangkok, höfuðborg Tælands, í nótt milli hermanna og mótmælenda sem krefjast þess að þing landsins verði leyst upp, boðað verði til kosninga og að forsætisráðherrann fari úr landi.

Aðgerðir stjórnarandstæðinga, sem eru stuðningsmenn Thaksins Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa staðið í rúma tvo mánuði. Í byrjun apríl var neyðarástandi lýst yfir í Bangkok en nú hafa stjórnvöld lýst yfir neyðarástandi í 15 héruðum til viðbótar. Herinn gaf mótmælendum frest til að koma sér í burtu sem rann út í gær. Í kjölfarið umkringdu hermenn búðir þeirra í höfuðborginni og kom til harðra átaka. Fyrrverandi hershöfðingi sem styður stjórnarandstöðuna var skotinn í höfuðið og er hann alvarlega særður. Skömmu síðar var mótmælandi skotinn til bana og þá liggja fjölmargir særðir eftir átökin. Ró komst á í gær en þau blossuðu upp á nýjan leik í nótt og beittu hermenn meðal annars táragasi.

Bretar hafa ákveðið að loka sendiráði sínu í Bangkok og kalla starfsfólkið heim. Áður höfðu bresk yfirvöld varað þegna sína við ferðalögum til Tælands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×