Viðskipti innlent

Ekki eins svart yfir landsmönnum og undanfarið

Ekki var jafn svart yfir landanum nú í febrúar og hefur að jafnaði verið síðustu misseri ef marka má niðurstöður könnunnar Capacent Gallup á væntingum íslenskra neytenda sem birt var nú í morgun. Þannig hækkaði Væntingavísitala Gallup um 9 stig í febrúar frá fyrri mánuði, eða úr 37,1 stig í 46,2 stig, og er gildi vísitölunnar nú það næsthæsta sem það hefur verið síðan í október 2008.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að auk þess er þetta fjórði mánuðurinn í röð sem vísitalan hækkar miðað við sama tíma fyrir ári en í febrúar í fyrra mældist vísitalan 24,3 stig. Er því ljóst að íslenskir neytendur telja ástandið nú ekki jafn slæmt og fyrir ári og ekki eins svart og það hefur að jafnaði verið frá hruni bankanna.

Mat á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum lækkar um tæpt stig milli mánaða og mælist áfram afar lágt, eða 7,7 stig. Hins vegar glæðast væntingar töluvert til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði og hækka um tæp 16 stig milli mánaða, eða úr 56,1 stigum í 71,8 stig. Er því ljóst að auknar væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði skýra hækkun vísitölunnar nú, líkt og síðustu mánuði, enda hefur mat á núverandi ástandi haldist nokkuð stöðugt síðustu misseri og þá mælst afar lágt.

Rúmlega 80% svarenda telja að efnahagsástandið sé slæmt um þessar mundir og tæp 53% þeirra telur að atvinnumöguleikar séu litlir. Þá telja um 34% svarenda að efnahagsástandið verði verra eftir 6 mánuði og um 23% að atvinnumöguleikarnir verði minni eftir þann tíma. Þetta eru mun lægra hlutföll en niðurstöður könnunnar Gallup leiddu í ljós í janúarmánuði en þá töldu um 44% svarenda að efnahagsástandið yrði verra eftir 6 mánuði og um 31% að atvinnumöguleikar yrðu minni eftir þann tíma. Þriðjungur svarenda nú telur að heildartekjur þeirra muni lækka á næstu 6 mánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×