Viðskipti innlent

Peningaeign Landsbankans verður 320-330 milljarðar í árslok

Peningaeign Landsbankans (LBI) nam 194 milljörðum króna við s.l. áramót og gert er ráð fyrir að um 126 milljarðar kr. bætist við á þessu ári. Samtals er því gert ráð fyrir að peningaeign bankans nemi um 320-330 milljörðum króna í lok þessa árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu skilanefndar bankans en fundur var í dag með kröfuhöfum. Í Tilkynningunni segir að skilanefnd LBI hafi uppfært til áramóta mat á eignum bankans frá því í september s.l. Samkvæmt því uppfærða mati, sem unnið er af sérfræðingum bankans, er gert ráð fyrir að um 1.172 milljarðar kr. fáist fyrir eignir upp í kröfur á hendur bankanum.

Bókfærðar innlánskröfur á hendur bankanum nema um 1.319 milljörðum kr. og eru að langstærstum hluta vegna innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Miðað við framangreindar forsendur er áætlað að unnt verði að úthluta um 89% upp í forgangskröfur eða um það bil einu prósentustigi meira en áætlað var við síðasta eignamat. Tekið skal fram að endanleg fjárhæð krafna og rétthæð þeirra ræðst af afstöðu slitastjórnar og eftir atvikum niðurstöðu dómstóla.

Forsendur fyrir eignamatinu eru að engar eignir LBI séu seldar á hrakvirði og að útlán, en útlánasöfn eru langstærstur hluti eigna bankans, séu innheimt samkvæmt skilmálum þeirra eins og greiðslugeta skuldara/greiðenda og settar tryggingar duga til. Bent er sérstaklega á að endanlegt virði eigna bankans er háð mikilli óvissu, m.a. vegna óþekktrar þróunar efnahagslegra þátta bæði innanlands og utan, sem getur haft áhrif á framtíðarvirði undirliggjandi eigna.

Áhersla er lögð á að sundurgreina og skýra kostnað við starfsemi LBI. Heildarkostnaðurinn við rekstur bankans á síðasta ári nam um 12 milljörðum kr. Langstærstu kostnaðarliðirnir eru laun og launaliðir, tæplega 3,5 milljarðar króna, og lögfræðikostnaður og annar sérfræðikostnaður, rúmlega 5.1 milljarður kr.

Við sundurgreiningunu kostnaðarliða sést að kostnaður vegna starfsemi LBI hf. á Íslandi nemur um 5 milljörðum króna, þar af er rúmlega 1 milljarður færður til bókar á Íslandi vegna kostnaðar erlendra sérfræðinga við fullnustu stórra eigna erlendis. Heildarkostnaður við starfsemi ræðst meðal annars af því að bankinn rekur viðamikla starfsemi erlendis, sérstaklega í Bretlandi, en einnig í Hollandi og Kanada.

Slitastjórn LBI kynnti afstöðu til um 1.400 krafna á kröfuhafafundinum. Áður hafði verið tekin afstaða til 1.175 krafna þar á meðal meginhluta þeirra krafna sem lýst var vegna innstæðna í Bretlandi og Hollandi. Slitastjórn hefur lokið að mestu að taka afstöðu til krafna sem lýst var með forgangi.

Ákveðið hefur verið að næsti kröfuhafafundur til að fjalla um lýstar kröfur verði haldinn þann 27. maí nk. og stefnir slitastjórn að því að ljúka við að taka afstöðu til krafna fyrir lok þessa árs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×