Viðskipti innlent

Listaháskólinn enn í biðstöðu í borginni

Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson

Áætlanir eru enn á teikniborðinu um að reisa 14.000 fermetra hús yfir Listaháskóla Íslands á mótum Laugavegar, Frakkastígs og Hverfisgötu og verslana- og þjónustukjarna ofar við Laugaveginn. Sveinn Björnssonar, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Cube Properties, sem á meirihluta fasteigna og lóða á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, segir efnahagsástandið setja strik í reikninginn.

„Plönin eru óbreytt. Þau hafa aðeins verið færð til á meðan beðið er eftir því að málin skýrist í efnahagsóreiðunni. Á meðan leigjum við fasteignirnar út og sjáum til þess að þær standi undir sér," segir hann.

Nokkuð umdeild vinningstillaga að byggingu Listaháskólans var lögð fram haustið 2008. Samkvæmt henni mun götumyndin halda sér að hluta og byggja á bak við og á milli þeirra húsa sem fyrir eru. Laugaveg 45 á að færa að 41. Þriðjungur nýja hússins á að vera neðanjarðar.

Samkvæmt fyrri áætlunum mun Cube Properties fjármagna byggingu hússins og eiga það en leigja skólanum. Verkefnið er ekki komið á það stig að hægt sé að sækja um lánsfjármagn fyrir framkvæmdina, að sögn Sveins.

Áætlanir um verslanamiðstöðina eru komnar skemur á veg. Fyrirhugað var að hún næði frá horni Laugavegar 65 að Laugavegi 71 og langleiðina niður að Skúlagötu. Sveinn segir miðstöðina verða minni í sniðum en upphaflega var stefnt að.

Sveinn segir Cube Properties tilbúið til framkvæmda þegar stjórnvöld gefi græna ljósið. Þangað til sé allt á bið. „Við verðum fasteignaleiga þar til málin fara að þokast," segir hann. Ekki er stefnt að sölu eigna þótt áætlanir hafi breyst. jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×