Erlent

Harka í hvalastríði

Japanska hvalveiðiskipið Shonan Maru 2 og Ady Gil, bátur hvalaverndarsamtakanna Sea Shepherd.fréttablaðið/AP
Japanska hvalveiðiskipið Shonan Maru 2 og Ady Gil, bátur hvalaverndarsamtakanna Sea Shepherd.fréttablaðið/AP

Hvalavinir á vegum samtakanna Sea Shepherd yfirgáfu skip sitt, Ady Gil, skömmu áður en það sökk í gær við Suðurskautslandið. Skipið hafði lent í árekstri við japanskt hvalveiðiskip á miðvikudag.

Ásakanir ganga á víxl milli alþjóðlegu hvalavinanna og japönsku hvalveiðimannanna, og vilja hvorir tveggja meina að hinir eigi sökina.

Liðsmenn Sea Shepherd hafa verið að sniglast í kringum japönsku hvalveiðiskipin til að mótmæla veiðunum. Á miðvikudaginn varð svo árekstur með þeim afleiðingum að stefni bátsins brotnaði.

Þegar ljóst þótti að báturinn myndi sökkva var annað skip frá Sea Shepherd, Bob Barker, sent á vettvang. Laskaða skipið var síðan dregið af stað í áttina til frönsku rannsóknastöðvarinnar Dumont D‘urville á Suðurskautslandinu.

Togvírar slitnuðu hins vegar á leiðinni, og á endanum sökk Ady Gil.

Þetta atvik er það alvarlegasta til þessa í árvissum átökum Sea Shepherd-samtakanna og japanskra hvalveiðimanna.

Japanar veiða árlega um 1.200 hvali við Suðurskautslandið með leyfi frá alþjóðlegu hvalveiðinefndinni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×