Skoðun

Spurt og svarað um stjórnarskrána

Þorvaldur Gylfason skrifar

Kjósandi lagði fyrir mig átta spurningar. Mig langar að deila þeim og svörunum við þeim með lesendum Vísis.

1. Hvaða skoðun hefur þú á persónukjöri og hvernig myndir þú útfæra það, ef þú ert því fylgjandi?

Persónukjör er greiðfærasta leiðin til að losna af klafa lúinna stjórnmálaflokka. Meira að segja forsætisráðherrann hefur sagt, að fjórflokkurinn sé dauður, hennar óbreytt orð, og má af því ráða, hversu brýnt það er fyrir fólkið í landinu að losna úr faðmi líksins. Útfærslan skiptir ekki höfuðmáli.

2. Hvernig vilt þú haga þrískiptingu valds? Vilt þú hafa lögbundna utanþingsstjórn eða að ráðherrar sitji á þingi? Hver á að skipa ráðherra? Viltu, að þeir þurfi að standast hæfniskröfur?

Forseti Íslands þarf að hafa skýra heimild til að skipa utanþingsstjórn, jafnvel þannig að utanþingsstjórn verði reglan fremur en undantekningin, bjóði aðstæður upp á þá skipan. Hæfniskröfur til ráðherra henta ekki og tíðkast ekki heldur í öðrum löndum. Kjósendur þurfa að hafa óskoraðan rétt til að kjósa yfir sig óhæfa stjórnmálamenn eins og hingað til. Þann rétt má aldrei taka af þeim, það er frumregla lýðræðisins. Ég vitna stundum til orða, sem George Brown, áður utanríkisráðherra Bretlands, lét falla á fundi í Reykjavík 1971 eða 72, ég hitti karlinn heima hjá foreldrum mínum: "There shall be no one to stop us from being stupid if stupid we want to be."

3. Vilt þú auka þjóðaratkvæðagreiðslur? Í hversu stórum málum þá? Og hvernig á að kalla eftir þeim? Eiga þær að vera bindandi fyrir framkvæmdarvaldið?

Þjóðaratkvæðagreiðslum þarf að fjölga til að leysa mál, sem Alþingi er ófært um að leysa eða vill ekki að leysa. Forseti Íslands eða tilskilinn hluti þingmanna eða kjósenda þarf að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Þær mega ýmist vera bindandi eða ekki eftir atvikum. Þó hentar ekki að bera skattamál og skuldir undir þjóðaratkvæði, því að kjósendur greiða ævinlega atkvæði gegn sköttum og skuldum. Þess vegna rambar Kalifornía nú á barmi gjaldþrots. Það er víti að varast. „Skattar eru gjaldið, sem við greiðum fyrir að búa í siðuðu samfélagi," sagði einn merkasti dómari Bandaríkjanna fyrr og síðar, Oliver Wendell Holmes.

4. Hvernig vilt þú haga skipan dómara?

Dómskerfið þarf að skera upp með því að fjölga dómstigum úr tveim í þrjú. Við það skapast skilyrði skv. núverandi stjórnarskrá til að stokka upp í Hæstarétti eins og ég hef lýst í Fréttablaðinu (sjá http://notendur.hi.is/gylfason/Sprungur2010.htm). Strangar hæfniskröfur þarf að gera til dómara líkt og annarra embættismanna til að taka fyrir skipan óhæfra dómara á flokkspólitískum forsendum með gamla laginu, jafnvel nápot. Vinnureglan ætti að vera sú, þótt ekki þurfi að binda hana í stjórnarskrá, að útlendingar séu jafnan hafðir með í ráðum eins og tíðkast t.d. við ráðningar í Háskóla Íslands og hefur gefizt vel þar, þótt ekki sé ráðið óbrigðult.

5. Á landið að vera eitt kjördæmi? Ef já, kæmi það ekki niður á landsbyggðinni, t.d. í samanburði við ESB, þar sem jafnt atkvæðavægi landa skilaði Íslandi engum fulltrúa? - líkt og líkt og jafnt vægi á Íslandi skilaði Vestfjörðum engum fulltrúa.

Landið á að minni hyggju að vera eitt kjördæmi. Það er greiðasta leiðin til að jafna atkvæðisréttinn og tryggja óskorað lýðræði. Ójafn atkvæðisréttur í Bandaríkjunum, þar sem fulltrúadeildin er umbjóðandi fólksins og öldungadeildin er umbjóðandi landsins, er óraunhæf fyrirmynd handa Íslendingum vegna þess, að Bandaríkin eru risavaxin og Ísland er þúsund sinnum fámennara land. Ójafn atkvæðisréttur hefur skaðað Ísland líkt og Hannes Hafstein varaði við strax á heimastjórnarárunum. Sama verður ekki sagt um ESB. Við þurfum að finna aðrar leiðir til að tryggja sátt og samlyndi milli landshluta. Borg og sveit eru systur, og góðum systrum semur vel.

6. Hvað vilt þú að þingmenn eigi að vera margir? Viltu takmarka, hversu lengi þeir sitja á þingi?

Þingmenn þurfa ekki að vera fleiri en 37 eða 31. Prímtölur henta vel, því að þá verður aldrei þrátefli í atkvæðagreiðslum, nema einhverjir þingmenn séu fjarverandi. Ráðherrar þurfa ekki að vera nema sex eða í mesta lagi átta, enda dugði sá fjöldi fram til ársins 1980, þegar ráðherrum var fjölgað upp í tíu. Fækkun þingmanna og ráðherra myndi hvetja þjóðina til að vanda betur mannvalið á vettvangi stjórnmálanna. Rétt er að takmarka, hversu lengi forseti Íslands og ráðherrar geta setið í embætti, en ekki þingmenn.

7. Vilt þú halda stjórnlagaþing reglulega til að endurskoða stjórnarskrána. Ef já, hversu reglulega?

Stjórnlagaþing má gjarnan halda með reglulegu millibili, t.d. á fimm eða tíu ára fresti. Stjórnarskrár eru lifandi skjöl handa lifandi fólki. Suður-Afríkubúar settu sér vandaða stjórnarskrá 1996 og hafa samt breytt henni nokkrum sinnum síðan eftir settum reglum.

8. Ert þú eða hefur þú verið tengd einhverjum stjórnmálaflokki?

Ég hef aldrei verið í eða komið nálægt neinum stjórnmálaflokki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×