Viðskipti innlent

Hertz kaupir 50 nýjar Skodabifreiðar af HEKLU

Undirritaður hefur verið samningur milli HEKLU og Bílaleigunnar Hertz um kaup á 50 nýjum Skoda Octavia og Skoda Yeti bifreiðum sem verða afhentar á vormánuðum en bílaleigan stefnir að því að vera búin að endurnýja allan bílaflota sinn haustið 2011. Von er á enn frekari samningum um tugi bíla til viðbótar.

Í tilkynningu segir að samkomulagið undirstrikar gott samstarf HEKLU og Hertz bílaleigunnar sem undanfarin ár hefur verið með Skoda Octavia í bílaflota sínum vegna óska viðskiptavina um stærri en jafnframt hagkvæmari bíla.

„Skoda Octavia er einstaklega hagkvæmur bíll í rekstri og sparneytinn og hefur verið mjög vinsæll meðal okkar viðskiptavin. Jafnframt var ákveðið að festa kaup á Skoda Yeti, nýja fjórhjóladrifna jepplinginum, sem er sparneytinn eins og aðrar Skodabifreiðar og hentar okkur því ákaflega vel," segir Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz, en hann festi nýlega kaup á Bílaleigu Hertz ásamt þeim Sigurði Berndsen, fjármálastjóra Hertz, Sigfúsi B. Sigfússyni, framkvæmdastjóra Hertz, og Sigfúsi R. Sigfússyni.

„Það er okkur hjá HEKLU mikið ánægjuefni að skrifa undir þennan samning og leggja þeim félögum þannig lið við uppbygginguna á bílaflota Hertz. Með hækkandi eldsneytisverði skiptir æ meira máli að bílar séu sparneytnir og þar koma Skodabifreiðarnar sterkar inn, eins og hefur margsannast í sparaksturskeppnum," segir Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU.

„Það er mjög ánægjulegt að eiga þessi viðskipti við HEKLU og við eigum eftir að ganga frá fleiri bílakaupasamningum," sagði Sigfús B. Sigfússon, framkvæmdastjóri HERTZ, sem undirritaði samninginn ásamt Knúti G. Haukssyni forstjóra HEKLU. „Við ætlum að vera búnir að endurnýja allan bílaflota okkar næsta haust og bæði Skoda Octavia og Yeti-jepplingurinn falla einstaklega vel að þeim áformum, enda öruggir, traustir og hagkvæmir bílar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×