Erlent

Líkum staflað hér og þar í Port au Prince

Óli Tynes skrifar

Sameinuðu þjóðirnar segja að nóg sé komið af hjálparsveitum til Haítí enda er flugvöllurinn í Port au Prince yfirfullur af flugvélum. Því má segja að hjálparstarfið sé hafið af fullum krafti.

Það var ekki seinna vænna því íbúarnir voru orðnir svo óþolinmóðir að þeir voru farnir að gera vegatálma úr líkum til þess að láta óánægju sína í ljós.

Ólafur Loftsson, hjá íslensku björgunarsveitinni sagði í samtali við fréttastofuna í morgun að foringjar annarra björgunarsveita væru á leið í búðir þeirra til þess að skipuleggja hjálparstarfið.

Aðspurður um hvers vegna þær kæmu til íslensku sveitarinnar sagði hann að bæði hefði íslenska sveitin verið fyrst á staðinn og svo hefði hún góðan fjarskiptabúnað þar sem allt virkaði.

Þeir hefðu því verið beðnir um að taka þátt í heildarskipulagningu björgunarstarfsins.

Líkhús borgarinnar eru öll löngu yfirfull og það hefur verið gripið til þess ráðs að stafla líkum víðsvegar um borgina meðan ákveðið verð hvað verður endanlega gert við þau.

Ólafur segir að auðvitað sé erfitt að sjá þúsundir af líkum um alla borgina en þeir verði að bíta á jaxlinn og einbeita sér að því að bjarga þeim sem enn lifi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×