Handbolti

Ásgeir Örn: Króatar miklu betri en Danir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Nordic Photos/AFP

Ásgeir Örn Hallgrímsson sagði lið Króatíu án efa sterkasta lið sem Ísland hefur spilað við á EM í handbolta til þessa.

„Ég er drullusvekktur. Mér fannst við í raun vera með þá allan leikinn,“ sagði Ásgeir Örn eftir leikinn sem lauk með jafntefli, 26-26.

Ísland var með forystuna lengst af en Króatar náðu frumkvæðinu í lokin og áttu í lokin tækifæri til að tryggja sér sigurinn.

„Þeir appelsínugulu með flauturnar voru svo sem ekkert með okkur í dag og það er mjög erfitt að vera manni færri gegn liði eins og Króatíu - hvað þá í sextán mínútur.“

„Það voru nokkrar alveg glórulausar brottvísanir í þessum leik, sérstaklega þessi sem Vignir fékk á sig undir lokin.“

„Það er allt í lagi að fá eitt stig á móti þeim en miðað við hvernig leikurinn spilaðist erum við mjög svekktir.“

Hann segir þó margt jákvætt við leikinn í dag.

„Við náðum að fylgja eftir Danaleiknum og spiluðum flotta vörn. Við náðum að loka vel á þá en því miður dugði það ekki til sigurs.“

„Króatar eru góðir og mun betri en Danirnir. Þeir eru gríðarlega reyndir og mjög sterkir maður á móti manni. Það var erfitt að takast á við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×