Viðskipti innlent

Ísland er áfram í biðstöðu hjá AGS

Caroline Atkinson forstjóri samskiptasviðs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) segir að staða Íslands sé óbreytt hjá sjóðnum. Þannig að AGS mun bíða eftir niðurstöðu í Icesavesamningunum áður en næsta endurskoðun sjóðsins á áætlun hans fyrir Íslands fer fram.

Þetta kom fram á reglulegum blaðamannafundi AGS í Washington í gærdag. Fundurinn fjallað að mestu um málefni Grikklands og möguleikana á að AGS yrði kallað til aðstoðar þar í landi.

Hvað Ísland varðar var spurt hvort von væri á næstu endurskoðun sjóðsins, hvort hægt væri að ná einhverju samkomulagi þrátt fyrir stöðuna í Icesavedeilunni og hver sé staðan hjá Íslandi.

„Málefni Íslands eru meir og minna í sömu stöðu og áður, það er við höldum áfram að ræða saman," segir Atkinson og bætti því við að hún vissi vel af þjóðaratkvæðagreiðslunni sem er framundan.

Atkinson endurtók síðan að lausn á Icesave sé ekki skilyrði af hálfu sjóðsins fyrir áframhaldandi vinnu hans á Íslandi en tryggja þyrfti að nauðsynleg fjárhagsaðstoð væri til staðar áður en hægt væri að halda áfram með áætlun sjóðsins.

Þá vildi Atkinson ekki tjá sig um hvað myndi gerast að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×