Handbolti

Dagur fékk sekt og hálfs árs skilorðsbundið bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis.
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis. Mynd/DIENER/Leena Manhart
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis, hefur verið sektaður um 2000 evrur og dæmdur í hálfs árs skilorðsbundið bann af Evrópska handboltasambandinu.

Dagur fékk að líta rauða spjaldið í leik Austurríkis og Króatíu í gær. En þar sem bannið er skilorðsbundið fær hann að sitja á bekknum þegar að Austurríki mætir Rússlandi í lokaleik sínum í keppninni á morgun.

Hann sagði í viðtali við Vísi í dag að hann taldi austurríska liðið hafa fengið ósanngjarna meðferð hjá eftirlitsmanni EHF á leiknum. Hann hafi ekki verið ósáttur við dómara leiksins.

„Hann var að setja út á það að við vorum að standa upp í gríð og erg - jafnvel þótt að við höfum verið að fagna marki," sagði Dagur.

„En það má svo sjá þegar maður skoðar leikinn að strax á fyrstu mínútu og í fyrstu sókn okkar í leiknum stendur króatíski þjálfarinn upp og veður beint í eftirlitsmanninn. Stór þjóð eins og Króatía græðir á því að búa til svona pressu strax í byrjun og þeir vita vel af því."

„Mér fannst því eftirlitsmaðurinn einfaldlega kikna í hnjánum."

Dagur þarf þó ekki að greiða sektina sjálfur. „Handboltasambandið ætlar að greiða sektina og styrkja svo gott málefni um tvö þúsund evrur til að sýna lit," sagði hann.

Austurríki á engan möguleika á sæti í undanúrslitum og leikur því sinn síðasta leik í keppninni gegn Rússlandi á morgun.

„Það situr vissulega smá reiði í okkur og ég á því von á hörkuleik. Rússarnir eru með betra lið á pappírnum eins og reyndar öll önnur lið í riðlinum. En við höfum sýnt að það verður ekkert gefist upp fyrr en leiktíminn rennur út."

Hann segist vera afar ánægður með frammistöðu sinna manna á mótinu til þessa.

„Við höfum spilað frábærlega í öllum fimm leikjunum. Það hefur ekki komið þessi slæmi kafli sem maður átti von á. Ég er himinlifandi með það. Strákarnir gefast líka aldrei upp og það er íslenskt hjarta í því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×