Viðskipti innlent

Vatnið komið til stórveldanna

Jón Ólafsson, stjórnarformaður vatnsfyrirtækisins, sýnir Össuri Skarphéðinssyni, þá iðnaðarráðherra, átöppunarverksmiðjuna við vígslu hennar í september 2008.
Fréttablaðið/
Jón Ólafsson, stjórnarformaður vatnsfyrirtækisins, sýnir Össuri Skarphéðinssyni, þá iðnaðarráðherra, átöppunarverksmiðjuna við vígslu hennar í september 2008. Fréttablaðið/

Íslenska vatnsátöppunarfyrirtækið Icelandic Water Holdings hefur gert dreifingarsamning við rússneska drykkjavörufyrirtækið ZAO Nectar-Trade um dreifingu á vatni á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial í Rússlandi.

Vatninu, sem er úr lind í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn á Suðurlandi, er tappað þar á flöskur í verksmiðju sem tekin var í gagnið síðla árs 2008. Feðgarnir Jón Ólafsson, löngum kenndur við Skífuna, og sonur hans, Kristján, eiga um áttatíu prósenta hlut í fyrirtækinu en bandaríski drykkjarvörurisinn Anheuser Busch fimmtung. Samningurinn í Rússlandi er einn af þeim stærstu hjá Icelandic Water Holdings en vatninu úr Ölfusinu er nú dreift í öllum ríkjum Bandaríkjanna og fæst að auki víða í Evrópu. Þá hefur það birst í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta í Bandaríkjunum.

ZAO Nectar-Trade selur hágæðavörur og er með samning við bensínstöðvar vítt og breitt um Rússland. Gert er ráð fyrir að íslenska vatnið verði til sölu fyrir austan í og við Moskvu og St. Pétursborg til að byrja með. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×