Viðskipti innlent

Arion ætlar að ganga að ábyrgðum 1998

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Litlar sem engar eignir eru inni í þeim félögum sem ábyrgðust lán til 1998 ehf. fyrrverandi móðurfélags Haga. Arion banki ætlar að ganga að þessum ábyrgðum og keyra félögin í þrot, óvíst er samt hvenær það gerist.

Fyrirtækin ISP, sem var í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, Bague, sem var í eigu Hreins Loftssonar og fleiri, og Gaumur, eignarhaldsfélags Jóns Ásgeirs og fjölskyldu, ábyrgðust 30 milljarða króna lán Kaupþings banka til Haga sumarið 2008. Þetta kemur skýrlega fram í lánayfirliti Kaupþings frá september 2008.

Inni í félaginu ISP voru eignir upp á 6,6 milljarða króna í lok árs 2007 og eigið fé var jákvætt um tæplega 500 milljónir. ISP átti hluti í mörgum félögum í Kauphöllinni sem allir eru verðlausir í dag. Auk þess átti félagið nokkrar óskráðar eignir sem óvíst er hversu mikils virði eru.

Fyrirtækið Bague SA er skráð í Lúxemborg og er í eigu þriggja fyrirtækja með aðsetur á Tortóla á Jómfrúreyjum, þ.e.a.s Waverton Group, Birefield Holdings, Starbrook International. Þessi fyrirtæki voru í eigu Kaupþings í Lúxemborg. Annar hluthafi var fyrirtækið Austursel, sem er í eigu Hreins Loftssonar. Bague er eignalaust í dag.

Gaumur átti hluti í Baugi Group og kjölfestuhlut í FL Group gegnum Styrk Invest. Þessir hlutir eru verðlausir í dag. Félögin þrjú, Gaumur, ISP og Bague, áttu saman Stoðir Invest sem átti hlut fjölmörgum fyrirtækjum, t.d Teymi og 365 miðlum.

Það sem Arion banki getur gert er, þar sem ábyrgðir félaganna þriggja eru ótvírætt til staðar, er að hann getur gengið að ábyrgðunum og keyrt félögin í þrot. En hvað ætlar bankastjórinn að gera? „Það verður gengið að öllum ábyrgðum, öllum eignum og öllum öðrum verðmætum sem bankinn getur komist yfir til þess að gera upp skuldir," segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka.

Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti er hægt að rifta samningum sem fela í sér ótilhlýðilega ráðstöfun fjármuna eða gjafagjörninga sem voru gerðir allt að 24 mánuðum fyrir gjaldþrot. Ef Arion banki gengur að félögunum þremur og keyrir þau í þrot verður skipaður skiptastjóri yfir þeim sem getur farið yfir samninga tvö ár aftur í tímann, ef ástæða er til.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×