Erlent

Átakamyndir af vettvangi frétta

Fréttaljósmynd ársins. Ítalskur ljósmyndari, Pietro Masturzo, hlýtur aðalverðlaunin fyrir mynd af hrópandi konu á húsþaki í Teheran, höfuðborg Írans. Konan er að mótmæla úrslitum forsetakosninganna í júní á síðasta ári. fréttablaðið/AP
Fréttaljósmynd ársins. Ítalskur ljósmyndari, Pietro Masturzo, hlýtur aðalverðlaunin fyrir mynd af hrópandi konu á húsþaki í Teheran, höfuðborg Írans. Konan er að mótmæla úrslitum forsetakosninganna í júní á síðasta ári. fréttablaðið/AP

AP- Sigurmynd ítalska ljósmyndarans Pietro Masturzo af konu á húsþaki í Teheran þykir bæði fögur og ná að grípa vel spennuna sem lá í loftinu í höfuðborg Írans þegar mótmælabylgjan var rétt að hefjast í kjölfar forsetakosninganna umdeildu.

Þessi ljósmynd var fyrst sýnd á ítölsku sjónvarpsstöðinni RAI og síðan birt í tímaritinu Loop.

„Ég trúi þessu ekki,“ sagði Masturzo þegar hann frétti af niðurstöðunni. „Ég hefði aldrei trúað því að lausamaður myndi sigra,“ en Masturzo er hvergi fastráðinn ljósmyndari.

Hann fær í sinn hlut tíu þúsund evrur, eða rúmlega 1,7 milljónir króna, og forláta ljósmyndavél þegar verðlaunin verða afhent í Amsterdam í byrjun maí.

Alls voru 63 ljósmyndurum frá 23 löndum veitt verðlaun í þessari virtu ljósmyndakeppni. Dómnefndin fékk það verkefni að velja úr rúmlega hundrað þúsund ljósmyndum frá 128 ríkjum, en aldrei hafa fleiri myndir verið sendar í keppnina.

Flestar verðlaunamyndirnar eru frá átakasvæðum víðs vegar um heim. Fyrstu verðlaun í flokki stakra fréttaljósmynda hlaut Adam Ferguson, ljósmyndari á New York Times, fyrir mynd af konu sem leidd er á brott eftir sprengjuárás í Kabúl, höfuðborg Afganistans.

Ljósmyndarar á vegum frönsku fréttastofunnar AFP hrepptu öll þrjú verðlaunin í flokki fréttaljósmyndaraða. Fyrsta sæti í þeim flokki kom annað árið í röð í hlut argentínska ljósmyndarans Walters Astrada, sem að þessu sinni fær verðlaunin fyrir myndaröð af harðvítugum átökum á Madagaskar.

gudsteinn@frettabladid.is

Átök á Madagaskar Fyrstu verðlaun í flokki fréttaljósmyndaraða hlaut argentínski ljósmyndarinn Walter Astrada fyrir myndir af átökum á Madagaskar. fréttablaðið/AP
Sprengjuárás í Kabúl Fyrstu verðlaun í flokki stakra fréttaljósmynda fékk ástralski ljósmyndarinn Adam Ferguson fyrir þessa mynd, sem tekin var í Kabúl í Afganistan.fréttablaðið/AP


Stríð er persónulegt Þessi ljósmynd, sem nefnist Stríð er persónulegt, er eftir bandaríska ljósmyndarann Eugene Richards. Hún úr ljósmyndaröð sem fékk fyrstu verðlaun í flokki mynda af samtímaviðburðum.fréttablaðið/AP
Innsetningarathöfn Barack Obama er ekki beint hógværðin uppmáluð á þessari ljósmynd eftir Charles Ommanney, sem tekin var á innsetningarathöfninni í Washington fyrir rúmu ári. Myndin er úr ljósmyndaröð sem fékk fyrstu verðlaun í flokki ljósmynda af fólki í fréttum.fréttablaðið/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×