Enski boltinn

Jovanovic og Chamakh búnir að ákveða hvar þeir spila næsta tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Chamakh  í leik með Girondins de Bordeaux.
Marouane Chamakh í leik með Girondins de Bordeaux. Mynd/AFP
Serbinn Milan Jovanovic og Marokkómaðurinn Marouane Chamakh gengu í kvöld frá samningum sínum við ensku úrvalsdeildarliðinu Liverpool og Arsenal en báðir koma til sinna nýju liða í sumar.

Hinn 28 ára Milan Jovanovic mun gera þriggja ára samning við Liverpool en hann kemur þangað frá belgíska liðinu Standard Liege á frjálsri sölu. Jovanovic hafnaði Real Madrid í fyrra þar sem hann vildi frá öruggan spilatíma. Hann hefur einnig verið inn í myndinni hjá ítölsku liðunum AC Milan og Juventus.

Jovanovic hjálpaði Serbum til að komast á HM í sumar og þá hefur hann verið lykilmaður á bak við tvo belgíska meistaratitla Standard Liege í röð. Hann var nýverið valinn leikmaður ársins í Belgíu.

Líkt og hjá Jovanovic þá rennur samningur Marouane Chamakh út í sumar og nú hefur þessi skemmtilegi sóknarmaður, samkvæmt heimildum The Times, ákveðið að semja við Arsenal.

Hinn 26 ára gamli Marouane Chamakh er fæddur í Frakklandi en spilar fyrir landslið Marokkó. Hann hefur spilað lykilhlutverk hjá frönsku meisturunum í Girondins de Bordeaux.

Sunderland, West Ham United og Liverpool kepptu öll við Arsenal um að næla í Chamakh en þessi kraftmikli framherji tók síðan þá ákvörðun að spila næstu árin á Emirates.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×