Innlent

Of lág laun grafa undan vinnusiðferði

Of lág laun eru að grafa undan vinnusiðferði í landinu og hvetja fólk til að vera fremur á atvinnuleysis- og örorkubótum. Þetta sagði formaður Vinnumálastofnunar á ársfundi hennar í dag og sagði nauðsynlegt að hækka lægstu laun.

Þótt yfir þrettán þúsund mann séu á atvinnuleysisskrá gengur mörgum fyrirtækjum illa að fá fólk til starfa. Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar, segir að ráðgjafar og vinnumiðlarar Vinnumálastofnunar standa frammi fyrir því að lítill eða enginn munur sé á lægstu launum og atvinnuleysisbótum. Það sé í reynd lítill eða enginn efnahagslegur hvati að því að vinna á lægstu launum umfram það að þiggja bætur.

„Þessi staðreynd er samfélagslegt vandamál sem nú grefur undan því vinnusiðferði sem áratugum saman hefur einkennt íslenskt samfélag. Nú ber ekki að túlka orð mín á þá vegu að bæturnar séu of háar. Því fer víðs fjarri. En launin eru allt of lág."

Runólfur bendir á að atvinnuleysisbætur séu um 150 þúsund krónur en dæmi séu um lægri launataxta. Þá séu örorkubætur um 180 þúsund krónur.

„Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að sammælast um að hækka lægstu launin upp fyrir bætur," segir Runólfur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×