Erlent

Hermenn á Jamaica sakaðir um morð á óbreyttum borgurum

Her og lögregla í Kingston þykir hafa farið offari í Tivoli Gardens.
Her og lögregla í Kingston þykir hafa farið offari í Tivoli Gardens. MYND/AFP

Íbúar í Tivoli Gardens, fátækrahverfinu í Kingston á Jamaica sem hafa þurft að búa við kúlnaregn og ofbeldi síðustu daga fullyrða að hermenn og lögregla hafi myrt fjölda óbreyttra og óvopnaðra manna í hverfinu síðustu daga.

Viðamikil aðgerð hefur staðið yfir í hverfinu en lögregla reynir nú að hafa hendur í hári Christopher Coke, sem sagður er stjórna stærsta glæpahring eyjunnar. Hann er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir fíkniefnainnflutning og vilja þarlend yfirvöld fá hann framseldann.

Átökin hafa nú staðið í fimm daga og er talið að 73 hafi látist í það minnsta. Hinsvegar hefur lögreglan, sem nýtur aðstoðar hersins, aðeins lagt hald á fjórar byssur í hverfinu, og þykir það benda til þess að Coke og fylgismenn hans hafi flúið af vettvangi skömmu eftir að átökin hófust. Enda hefur hvorki fundist tangur né tetur af glæpaforingjanum.

Amnesty International hefur krafist þess að átökin verði rannsökuð og segja samtökin margt benda til þess að í mörgum tilfella hafi verið um morð að ræða en ekki mannfall í átökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×