Erlent

Hvalavinur fyrir dómi í Japan

Óli Tynes skrifar
Sea Shepherd liðar eru iðnir við að angra japönsk hvalveiðiskip.
Sea Shepherd liðar eru iðnir við að angra japönsk hvalveiðiskip.

Liðsmaður hvalaverndunarsamtakanna Sea Shepherd á yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi ef hann verður sekur fundinn í réttarhöldum sem hófust í Japan í dag.

Hinn 44 ára gamli Peter Bethune stýrði hraðbáti Sea Shepherd sem lenti í árekstri við japanskt hvalveiðiskip í janúar síðastliðnum. Skipið skemmdist og báturinn sökk.

Nokkrum vikum seinna stökk Bethune um borð í annað japanskt hvalveiðiskip og reyndi að handtaka skipstjóra þess.

Hann var þess í stað handtekinn sjálfur. Fyrir rétti í dag viðurkenndi Bethune að hann hefði ráðist um borð í hvalveiðiskipið, en taldi sig hafa haft fulla ástæðu til þess.

Hann viðurkenndi einnig að hafa skotið smjörsýru á japanska skipið. Ákæruvaldið segir að hún hafi brennt tvo skipverja.

Sea Shepherd segir hinsvegar að sýran sé hættulaus þótt hún sé illa lyktandi. Hún finnst meðal annars í þráu smjöri og ælu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×