Erlent

Plástur læknar húðkrabbamein

Óli Tynes skrifar
James Ferguson, prófessor.
James Ferguson, prófessor.

Plástur sem læknar húðkrabbamein verður kynntur á læknaráðstefnu í Mónakó í dag. Plásturinn hefur enn ekki verið þróaður fyrir sortuæxli en árangurinn í meðferð á öðrum tegundum húðkrabbameins er sagður vera 90 prósent.

Þetta er auðvitað enginn venjulegur heftiplástur heldur hátækniplástur þar sem fer saman notkun á kremi og litlu ljósi.

Kreminu er nuddað inn í húðina. Það síast aðeins inn í krabbameinsfrumurnar en ekki heilbrigða vefi. Plásturinn er svo lagður yfir.

Eftir þrjár klukkustundir kviknar ljósið sjálfkrafa. Það breytir kreminu í eiturefni sem drepur krabbameinsfrumurnar án þess að skaða húðina að öðru leyti.

Þetta er bæði fyrirhafnarminna og sársaukaminna en skurðaðgerð og skilur ekki eftir sig nein ör.

Sky fréttastofan ræddi við Muriel Lowe sem fór í tvær plástursmeðferðir með viku millibili. Hún sagði að árangurinn hefði verið stórkostlegur.

Hún sagði að húð sín væri þannig að hún hefði fengið ör eftir skurðaðgerð. Læknar hefðu sagt sér að útlitslega væri þetta heppilegra og einfaldara og þeir hefðu haft rétt fyrir sér.

Hönnuður plástursins er prófessor James Ferguson við Ninewells sjúkrahúsið í Dundee í Skotlandi.

Hann segir að enn sé verið að þróa plásturinn og finna nýjar leiðir til að nota ljósið, til dæmis að láta það púlsera. Það sé enn hægt að bæta árangurinn.

Ferguson segir að plásturinn sé svo einfaldur í notkun að hægt sé að nota hann á venjulegum læknastofum. Það minnki álag á sjúkrahúsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×