Erlent

Ég vona að hann rotni í helvíti

Óli Tynes skrifar
Raoul Moat
Raoul Moat

Þegar hann var að ljúka við að afplána fangelsisdóm fyrir ofbeldisbrot hafði Raoul Moat samband við kunningja sem útvegaði honum afsagaða haglabyssu.

Tveim dögum eftir að hann var látinn laus sat hann fyrir hinni tuttugu og tveggja ára gömlu Sam Stobbart og Chris Brown nýjum kærasta hennar. Brown var 29 ára gamall en Moat var 37 ára.

Stobbart hefur lýst atburðarásinni fyrir dagblaðið News of The World. Hún segir að þau hafi verið að ganga út úr húsi foreldra hennar þegar Moat skyndilega stökk fram.

Hann sagði ekki aukatekið orð en skaut Chris Brown í fæturna af dauðafæri. Hann skaut hann svo öðru skoti í bakið og því þriðja í höfuðið.

Meðan Moat var að hlaða haglabyssuna stökk Stobbart aftur inn í húsið þar sem nítján mánaða dóttir þeirra Moats var sofandi.

Moat skaut þá á hana í gegnum glugga og hitti hana í magann. Stobbart bar vinstri handlegginn fyrir sig og læknar segja að það hafi bjargað lífi hennar því hann tók mesta höggið af skotinu.

Stobbart segir að móðir hennar Lesley hafi hlaupið út úr húsinu og æpt á Moat; -Þú skaust barnið mitt, skjóttu mig ódámurinn þinn.

Fósturfaðir Stobbart Paul hljóp einnig út úr húsinu og sá að Moat beindi haglabyssunni að höfði Lesley.

Paul segir að þeir hafi horfst í augu og að augnaráð Moats hafi verið gersamlega tilfinningalaust. Eitthvað hafi hann þó rankað við sér og hann hljóp á brott án þess að skjóta Lesley.

Daginn eftir skaut hann svo lögreglumann í andlitið með þeim afleiðingum að hann blindaðist.

Eftir vikulangan feluleik svipti Moat sig svo lífi þegar lögreglan hafði umkringt hann.

Kveðjuorð Sam Stobbart til fyrrverandi kærasta síns eru; -Ég vona að hann rotni í helvíti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×