Viðskipti innlent

Evran heldur áfram að veikjast

Enn heldur evran áfram að veikjast gagnvart helstu myntum. Í gærdag var lækkunin m.a. rakin til þess að væntingar fyrirtækja í Þýskalandi minnkuðu umfram spár.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á hinn bóginn virðist Bandaríkjadollar þessa dagana ekki vera eins viðkvæmur fyrir neikvæðum hagtölum og evran en í gær var bandaríska væntingavísitalan birt sem leiddi í ljós að svartsýni á meðal bandaríska neytenda jókst töluvert nú í febrúar frá fyrri mánuði.

Þrátt fyrir að ekki sé eins mikið horft nú til Grikklands og á undanförnum vikum er ljóst að enn megi rekja veikingu evrunnar til ótta við að ekki sé búið taka almennilega á skuldavanda Grikklands og annarra ríkja sem illa standa innan evrusamstarfsins. Jafnframt er talið líklegt að Seðlabanki Bandaríkjanna komi til með að draga úr lausafé sem mun hafa jákvæð áhrif á gengi Bandaríkjadollars. Nú þegar þetta er ritað (Kl: 11:00) stendur EUR/USD krossinn í 1,355 en fyrir rúmum mánuði síðan stóð hann í 1,45.

Engin viðskipti hafa verið á millibankamarkaði með gjaldeyri hér á landi síðan í byrjun síðustu viku og hefur gengi krónunnar gagnvart evru því verið stöðugt á þeim tíma. Eins og kunnugt er ákvarðast gengi evru gagnvart krónu á millibankamarkaði. Það gerir það að verkum að þegar mikil breyting er á evrunni og þá í átt til veikingar leiðir það til þess að krónan fylgir og veikist gagnvart öðrum myntum.

Evran stendur nú í 174,3 krónum en um áramótin var hún í 179,9 krónum. Þetta jafngildir því að krónan hafi hækkað um 3,2% gagnvart evru á tímabilinu. Á hinn bóginn stendur Bandaríkjadollar í 128,5 krónum og hefur krónan lækkað um 2,8% gagnvart dollaranum frá áramótum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×