Erlent

Eldsneytið sent í næstu viku

Orkumálaráðherra Rússlands og yfirmaður kjarnorkumála í Íran þegar þeir hittust við Bushehr-verið á síðasta ári.
nordicphotos/AFP
Orkumálaráðherra Rússlands og yfirmaður kjarnorkumála í Íran þegar þeir hittust við Bushehr-verið á síðasta ári. nordicphotos/AFP
Rússar ætla í næstu viku að útvega eldsneyti í fyrsta kjarnorkuver Írans þrátt fyrir harða andstöðu Bandaríkjamanna, sem vilja koma í veg fyrir að Íranar geti framleitt kjarnorku nema þeir hafi fyrst fært sönnur á að þeir ætli ekki að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Eldsneyti unnið úr úrani verður dælt á kjarnaofninn í Bushehr-kjarnorkuverinu þann 21. ágúst. Þá strax verður hafist handa við að ræsa ofninn, en það ferli tekur um fjórar vikur. Að því búnu verður hægt að senda raforku til heimila í Íran.

„Frá og með þeim tíma telst Bushehr-verið opinberlega vera kjarnorkuframleiðslustöð,“ segir Sergei Novikov, talsmaður rússnesku kjarnorkustofnunarinnar.

Rússland undirritaði árið 1995 samning við Írana um að byggja Bushehr-verið, en Rússar hafa dregið það lengi að ljúka við bygginguna.

Rússar hafa borið við tæknilegum erfiðleikum, en stjórnmálaskýrendur telja að Rússar hafi notað tímann til að þrýsta á Írana um að gefa meira eftir varðandi kjarnorku­áform sín.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×