Erlent

Fá ýmislegt að láni hjá Apple

Tvö ár eru talin í að næsta kynslóð af Windows-stýrikerfi Microsoft líti dagsins ljós.
Tvö ár eru talin í að næsta kynslóð af Windows-stýrikerfi Microsoft líti dagsins ljós.
Skjáskot af því sem sagt er sýna næstu uppfærslu á Windows-stýrikerfinu úr búðum bandaríska hugbúnaðarrisanum Microsoft láku á Netið á dögunum. Þau fóru sem eldur um sinu um netheima í síðustu viku. Það var ítalskur bloggari sem gengur undir nafninu Windowsetta, sem setti upprunalega skjáskotin á Netið.

Um nokkrar glærur er að ræða. Það sem helst tengir þær við nýtt stýrikerfi er tilvísun í það í horni hverrar glæru. Nýjasta útgáfa stýrikerfis Microsoft heitir Windows 7 og kom á markað í október í fyrra. Miðað við það sem fram kemur á glærunum sem láku á Netið er reiknað með næstu útgáfu eftir tvö ár. Microsoft hefur ekki vilja staðfesta hvort glærurnar eru raunverulegar eður ei, að sögn netmiðilsins InformationWeek.

Miðað við það sem sést á glærunum fær Microsoft að láni nokkrar af lausnum keppinautarins Apple. Ein þeirra er netverslunin Windows App Store, sem gerir netverjum kleift að kaupa hugbúnað með svipuðum hætti og notendur Apple-tækja hafa getað gert í tvö ár. Þá má reikna með auknum stuðningi við myndræna upplifun, þar á meðal þrívídd. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×