Erlent

Konur í Kaupmannahöfn lifa fjölbreyttu kynlífi

Samkvæmt nýrri rannsókn í Danmörku lifa konur í Kaupmannahöfn mun fjölbreyttara kynlífi en kynsystur þeirra í öðrum landshlutum Danmerkur.

Rannsóknin var unnin á vegum Krabbameinssamtakanna í Danmörku, Kræftens Bekæmpelse og náði til rúmlega 20.000 kvenna. Helstu niðurstöður hennar eru að um 44% kvenna í Kaupmannahöfn hafa haft fleiri en 10 kynlífsfélaga á meðan þetta hlutfall er helmingi lægra eða 22% hjá konum á dönsku landsbyggðinni.

Kristen Egebjerg Jensen ráðgjafi hjá Kræftens Bekæmpelse og ein af þeim sem stjórnuðu rannsókninni segir að augljóst sé að konur í Kaupmannahöfn gifti sig síðar en kynsystur þeirra á landsbyggðinni og hafi þar með átt fleiri kynlífsfélaga.

Kirsten segir einnig að fram hafi komið að mjög hátt hlutfall kvenna á landsbyggðinni hafi aðeins átt einn kynlífsfélaga sem þýði að þær eru mun fljótari að koma sér í fasta sambúð en konurnar í Kaupmannahöfn.

Í stórborg er auk þess mun fjölbreyttara mannlíf en á landsbyggðinni þannig að segja megi að meðan að konur í Kaupmannahöfn hafi aðgang að erótísku hlaðborði verði konur á Jótlandi að láta sér pulsuvagninn nægja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×