Viðskipti innlent

Lánveitingar Byrs til sérstaks saksóknara

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Forsvarsmenn sparisjóðsins Byrs hafa sent skýrslu um lánveitingar sparisjóðsins frá árinu 2005 til sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins. Þeir óska eftir því að athugað verði hvort tilefni sé til formlegrar rannsóknar á meintum brotum fyrrverandi stjórnarmanna og lykilstarfsmanna Byrs.

Stjórnarmaður, sparissjóðsstjóri og innri endurskoðandi Byrs funduðu í gær með sérstökum saksóknara um leið og þeir afhentu 90 síðna skýrslu um málefni sjóðsins. Skýrslan fór líka til Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu snýst skýrslan að mestu leyti um lánveitingar sjóðsins til nokkurra fyrirtækja og einstaklinga, þar á meðal marga að stærstu eigendum sjóðsins.

Athugasemdirnar snúast að mestu leyti um hvernig var staðið að lánveitingunum auk þess sem efast er um veðin hafi verið nægjanleg á þeim tíma sem lánin voru veitt. Mun skýrslan ná aftur til ársins 2005. Þá voru þeir sparisjóðir sem nú mynda Byr sjálfstæðir. Þ.e. Sparisjóður Vélstjóra, Hafnarfjarðar, Kópavogs og Norðlendinga.

Nýir forsvarsmenn Byrs hafa nú óskað eftir að embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitið fari yfir skýrsluna og athugi hvort tilefni sé til að hefja formlega rannsókn á meintum brotum fyrrverandi stjórnarmanna og lykilstarfsmanna Byrs. Vonast er til að með þessu sé hægt að endurheimta hluta af þeim fjármunum sem hafa tapast undanfarin ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×