Erlent

Yfirvöld í Dubai leita að dularfullum launmorðingjum

Mynd af þremur grunuðum launmorðingjum sem voru með írsk vegabréf.
Mynd af þremur grunuðum launmorðingjum sem voru með írsk vegabréf.

Yfirvöld í Dubai leita að ellefu einstaklingum sem eru grunaðir um að hafa myrt Mahmoud al-Mabhouh, sem er einn af stofnendum vopnaðs anga Hamas-samtakanna í Palestínu.

Ekki ber heimildum saman um það hvernig Mabhouh var myrtur. Samkvæmt heimildarmönnum The Daily Telegraph þá var hann annað hvort sprautaður með eitri sem framkallaði hjartaáfall, eða hann var kyrktur eftir að hafa verið pyntaður með rafmagni.

Yfirvöld í Dubai er mjög dul á rannsóknina. Engu að síður héldu þau blaðamannafund í gær þar sem ellefu einstaklingar voru nafn- og myndbirtir.

Málið hefur vakið sérstaka ahygli i Bretlandi því þrír af meintu morðingjunum voru með írsk vegabréf. Aftur á móti kannast írsk stjórnvöld ekki við vegabréfin og segja þau fölsuð samkvæmt fréttastofu Reuters.

Rannsóknaraðilar í Dubai gruna meðal annars ísraelsku leyniþjónustuna Mossad um að bera ábyrgð á verknaðinum. Sérfræðingar segja morðið ekki hafa þeirra handbragð, ef svo má að orði komast, en Mossad er heimsþekkt fyrir sérstaklega fagmannlegan og skjótvirkan stíl þegar kemur að því að myrða andstæðinga sína.

Þessi hópur virðist ekki hafa haft sama yfirbragð þó svo yfirvöld segi morðið augljóslega framið af þeim sem þekkja til og hafa gert slíkt áður.

Upptökur eru til á hótelinu af konu með sólgleraugu og stóran hatt. Þá náðust myndir af fjórum launmorðingjum sem brutust inn í herbergi Mabhoud.

Málið er óupplýst. Ísraelsk stjórnvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×