Erlent

Fáir hryðjuverkaleiðtogar í Guantanamo

Um tíu prósent þeirra 240 fanga sem enn voru í Guantanamo fangabúðunum á Kúbu þegar Barack Obama tók við embætti forseta eru taldir hafa verið hátt settir menn í hryðjuverkasamtökum sem ætluðu að ráðast gegn Bandaríkjunum. Hinir eru taldir hafa verið lágt settir fylgismenn. Þetta kemur fram í skýrslu sem gerð var af ríkisstjórn Bandaríkjanna en hefur aldrei verið gerð opinber. Bandaríska dagblaðið The Washington Post hefur skýrsluna nú undir höndum og hefur birt útdrætti úr henni. Fimm prósent fanganna var ekki hægt að tengja við hryðjuverk með nokkrum hætti.

Skýrslan var gerð í janúar og í henni er mælt með því að 126 föngum verði fluttir til síns heima eða til þriðja ríkis, 36 verði ákærðir fyrir bandarískum dómstólum og að 48 verði áfram haldið sem stríðsföngum. Þá var mælt með að 30 Jemenum yrði sleppt ef ástandið í heimalandi þeirra batnaði.

Skýrslan gæti haft afleiðingar á Bandaríkjaþingi því andstaðan við loforð Obama um að loka fangabúðunum hefur farið vaxandi í þinginu síðustu misserin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×