Erlent

Wilders vill í stjórn en mætir andstöðu

Geert Wilders Leiðtogi þjóðernissinna fagnar sigri og vill ólmur í stjórn.
Geert Wilders Leiðtogi þjóðernissinna fagnar sigri og vill ólmur í stjórn. nordicphotos/AFP

„Hið ómögulega gerðist," sagði Geert Wilders, leiðtogi þjóðernissinna í Hollandi. „Við unnum stærsta sigur kosninganna. Við viljum í stjórn."

Wilders hefur boðað harða stefnu gegn innflytjendum, einkum þó múslímum, og hefur hvað eftir annað lýst trúarritum múslíma sem fasískum. Ljóst er að aðrir flokkar vilja helst ekki hafa hann með sér í stjórn.

Stærsti flokkur þingsins eftir kosningarnar er Þjóðarflokkur frjálslyndra íhaldsmanna. Mark Rutte, leiðtogi flokksins, lýsti því yfir í gær að hann fengi umboð til stjórnarmyndunar.

Verkefnið verður þó ekki auðvelt. Þriggja flokka hægristjórn næði til dæmis ekki meirihluta á þingi, auk þess sem stefna Wilders er of umdeild til að slík stjórn stæði sterk að vígi.

Líklegasta niðurstaðan virðist sem stendur vera sú, að stærstu flokkarnir tveir, Kristilegir demókratar og Verkamannaflokkurinn, reyni að mynda breiða miðjustjórn með þátttöku Vinstri grænna og Demókrata 66. Samtals hefði sú stjórn 81 þingmann.

Leiðtogi Kristilega demókrataflokksins, Jan Peter Balkanende forsætisráðherra, sagði af sér strax á miðvikudagskvöld þegar ljóst var orðið að flokkurinn hefði beðið afhroð í kosningunum. Í gær tók síðan Maxime Verhagen við leiðtogaembættinu af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×