Viðskipti innlent

Erlendir aðilar eiga 246 milljarða í ríkisbréfum og víxlum

Erlendir aðilar eiga tæplega 246 milljarða kr. í íslenskum ríkisbréfum og ríkisvíxlum í lok síðastliðins árs. Kemur þetta fram í gögnum sem Lánamál ríkisins birtu í morgun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að erfitt hafi verið að kveikja áhuga erlendra aðila á lengri skuldabréfum undanfarið og hafa þeir flestir haldið sig við stutt ríkisskuldabréf. Virðast þeir vera hræddir við að binda fé sitt hér til lengri tíma. Eru erlendir aðilar þannig afgerandi stærstu eigendur stuttra ríkisverðbréfa hér á landi. Í

lok síðastliðins árs áttu þeir 76% af flokkum ríkisbréfa með gjalddaga 2010-2013. Samtals áttu þeir tæplega 173 milljarða kr. á nafnverði af fjórum flokkum ríkisbréfa með gjalddaga á þessum tíma. Í heild var nafnvirði þessara flokka tæplega 228 milljarðar kr. um áramótin. Staða erlendra aðila í þessum bréfum breyttist lítið á milli nóvember og desember síðastliðinn.

Hins vegar jókst staða erlendra aðila talsvert í ríkisvíxlum en þeir áttu í lok síðastliðins árs tæpa 58 milljarða kr. að nafnvirði af ríkisvíxlum en heildarútgáfa útistandandi víxla nam þá tæplega 83 milljarða kr. á nafnvirði. Var staða þeirra í ríkisvíxlum í lok nóvember ríflega 40 milljarðar kr. og jókst því um nær 18 milljarða kr. í desember. Samtals áttu erlendir aðilar því tæplega 246 milljarða kr. í íslenskum ríkisbréfum og ríkisvíxlum í lok síðastliðins árs. Kemur þetta fram í gögnum sem Lánamál Ríkisins birtu í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×